Eimskip: Gögn frá Héraðssaksóknara vegna rannsóknar á samkeppnismálinu afhent


Embætti Héraðssaksóknara hefur afhent sakborningum rannsóknargögn sem lögmenn  þeirra eru nú að byrja að fara yfir.  Þetta þýðir að nú loksins hafa fengist upplýsingar um megin sakarefnið hvað varðar meint brot á 10. gr. samkeppnislaga, í þeim hluta rannsóknarinnar sem snýr að Héraðssaksóknara. 

Í kærum Samkeppniseftirlitsins til embættis Héraðssaksóknara, kemur fram að megin sakarefnið felist í eftirfarandi atriðum á tímabilinu 2008-2013:

  • „Til rannsóknar er ætlað ólögmætt samráð Eimskips og Samskipa, sbr. 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins.  Samráðið er m.a. talið felast í því að sameiginlegur skilningur hafi náðst milli Samskipa og Eimskips um að takmarka flutningaframboð sitt og félögin hafi skipt á milli sín viðskiptavinum með því að gera ekki atlögu að stórum viðskiptavinum hvors annars.  Í þessum tilgangi eða af þessu leiddi að komið var á og viðhaldið ástandi (friður) á flutningamarkaðnum þar sem forsendum virkrar samkeppni var raskað og fyrirtækjum gert kleyft að hækka verð til viðskiptavina.  Einnig eru vísbendingar að um hafi verið að ræða beint verðsamráð og ólögmæta upplýsingagjöf milli hinna grunuðu fyrirtækja.
  • Til rannsóknar er hvort tilteknir stjórnendur Eimskips og Samskipa hafi framkvæmt hvatt til eða látið framkvæma umrætt ætlað samráð Eimskips og Samskipa og þannig brotið gegn 41. gr. a samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 42. gr laganna.“  (bein tilvitnun í kæru Samkeppniseftirlitsins).

Allt frá því að  Samkeppniseftirlitið synjaði Eimskip um aðgang að gögnum málsins þann 13. september 2013, eða fyrir tæpum 5 árum, hefur félagið leitað eftir því að fá haldbærar upplýsingar um grundvöll þess.  Með úrskurði áfrýjunarnefndar í samkeppnismálum í september 2014 var félaginu veittur afar takmarkaður aðgangur að húsleitarheimild og reifun Samkeppniseftirlitsins á málsatvikum, en allt sem máli skipti var afmáð.  Hefur félagið tilkynnt um allt sem það þá fékk að vita um málið, m.a. með ítarlegri fréttatilkynningu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í október 2014.

Félaginu hefur ekki borist andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu vegna málsins sem bendir til þess að málið sé enn ekki fullrannsakað hjá Samkeppniseftirlitinu.  Samkvæmt yfirlýsingum Héraðssaksóknara er verið að vinna í málinu og síðan verði að koma í ljós hvað komi út úr því.  Félagið fagnar því að sakborningar hafi fengið gögn og að loksins sé sakarefnið varðandi 10. gr. samkeppnislaga komið fram. Enginn starfsmaður félagsins hefur verið ákærður.