- Hlutafjárútboði Skipta hf. lokið


Hlutabréf félagsins verða tekin til viðskipta í OMX Nordic Exchange Iceland hf.
19. mars 2008 

Almennu hlutafjárútboði á 30% hlut í Skiptum hf. er lokið.  Með útboði og
skráningu er efnt að fullu það samkomulag sem kaupendur félagsins gerðu við
íslenska ríkið árið 2005 þegar fyrirtækið var einkavætt. 

Alls óskuðu 179 fjárfestar eftir að kaupa 552.220.641 hluti í Skiptum eða sem
nemur 7,49% af heildarhlutafé félagsins. Útboðsgengið var 6,64 krónur á hlut.
Söluandvirðið nemur 3.666.745.047 krónum. 523.343.369 hlutum var úthlutað til
fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum að andvirði meira en 25 milljónir króna.
28.877.272 hlutum var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum að
andvirði 100 þúsund til 25 milljónir króna. 

Við ákvörðun endanlegs útboðsgengis og úthlutun til fjárfesta var fylgt þeim
skilmálum sem gerð er grein fyrir í lýsingu Skipta frá 4. mars 2008. 

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta: 

„Það er mjög mikilvægt skref fyrir Skipti að ljúka útboðinu og verða í
kjölfarið skráð á markað. Við fögnum því að fá nýja hluthafa í hluthafahópinn.
Fjárfestar hafa sýnt félaginu góðan áhuga og ég vænti þess að þegar fram líða
stundir muni þeim fjölga enn frekar. Boðnir voru til sölu þegar útgefnir hlutir
og því hefur útboðið ekki áhrif á rekstur eða framtíðarhorfur félagsins. Að
baki Skiptum stendur breiður hópur öflugra hluthafa. “ 

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi: 

„Með þessu útboði er efnt það samkomulag sem gert var við íslenska ríkið árið
2005 þegar fyrirtækið var einkavætt. Það hefur verið ánægjulegt að vinna með
Skiptum að skráningu félagsins og niðurstöðurnar eru í samræmi við þær
væntingar sem við höfðum, með tilliti til núverandi aðstæðna á markaði. Skipti
er öflugt félag með sterka stöðu á innanlandsmarkaði og mikil tækifæri til
vaxtar. Kaupþing mun áfram vinna náið með félaginu og væntir mikils af því í
framtíðinni.“ 

Viðskipti með hlutafé Skipta munu hefjast í OMX ICE miðvikudaginn 19. mars 2008.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hf. hafði umsjón með hlutafjárútboðinu. 

Nánari upplýsingar um Skipti og nýafstaðið hlutafjárútboð er að finna í lýsingu
félagsins sem gefin var út í tengslum við hlutafjárútboðið og skráningu í OMX
ICE. Hægt er að nálgast lýsinguna á heimasíðu Skipta (www.skipti.is). 

Nánari upplýsingar: 
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Skipta hf., í síma
863-6075. 
Benedikt Sigurðsson, samskiptasviði Kaupþings banka hf., í síma 444-6775.


Um Skipti: 
Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta,
upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Já,
Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, On-Waves og Radiomiðun. Erlend dótturfélög eru
fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi, Síminn DK í Danmörku, og
upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og
Danmörku.