EBITDA 40 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi


-Vöxtur í tekjum og EBITDA framlegð í samræmi við áætlanir-

-Fjármagnsliðir munu lækka umtalsvert á þriðja ársfjórðungi-

-Tap tímabilsins 39 milljónir evra vegna hárra fjármagnsliða-
 
Helstu atriði úr uppgjörinu 	

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 440,8 milljónum evra (1F 2007: 306,2
milljónir evra), sem er 44% tekjuaukning á milli ára. Undirliggjandi vöxtur 
samstæðunnar er um 10% á fjórðungnum og í samræmi við áætlanir stjórnenda.
Góður árangur náðist í Bandaríkjunum og Kanada, minni vöxtur varð í Bretlandi
en búist var við en allar aðrar einingar félagsins skiluðu vexti og afkomu eins
og búist var við. 

Starfsemi Eimskips skiptist í tvær meginstoðir; flutningastarfsemi
(sjóflutningar og tengdir flutningar) og hinsvegar rekstur kæli og
frystigeymslna (einnig tengdir flutningar). 

•	Tekjur af flutningastarfsemi námu 149,2 milljónum evra á fjórðungnum (1F
2007: 131 milljón evra) og undirliggjandi tekjuvöxtur nam tæpum 14%, sem
skýrist m.a. af góðum rekstri á Norður Atlantshafs og Eystrasaltssvæðinu. 
•	Tekjur af rekstri kæli og frystigeymslna námu 294,2 milljónum evra á
fjórðungnum, sem endurspeglar um  9% undirliggjandi tekjuaaukningu milli ára. 
•	Rekstrargjöld á tímabilinu námu 423,1 milljónum evra (1F 2007: 294,7
milljarðar evra) og jukust um 43,6% milli ára, í kjölfar kaupa á Versacold sem
ekki var hluti af samstæðunni á 1F 2007. 
•	Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 39,7
milljónum evra á fjórðungnum (1F 2007: 25,5 milljónir evra) og jókst því um
55,6% á milli ára. Framlegðarstig hefur einnig aukist og er nú 9,0%, í samræmi
við áætlanir stjórnenda. 
•	Tap eftir skatta var 38,9 milljónir evra, samanborið við 5,6 milljóna evra
tap 1F 2007. Tap á tímabilinu skýrist af háum fjármagnsliðum en stefnt er að
sölu eigna á öðrum ársfjórðungi sem mun bæði lækka vaxtakostnað félagsins
umtalsvert og minnka gengisáhættu vegna skulda í bandaríkjadal sem m.a. orsakar
gengissveiflu á tímabilinu. 
o	Heildarfjármagnskostnaðar er 39,1 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi
félagsins en eignasala á 2F mun skila verulegri lækkun á vaxtakostnaði frá og
með 3F 2008. 
o	Gengistap var 17,9 milljónir evra á fjórðungnum.

Stefán Ágúst Magnússon, forstjóri Eimskips, um uppgjörið:

“Árið fer ágætlega af stað hjá okkur og ánægjulegt að sjá góðan árangur í
Norður Ameríku, eins er okkur að ganga vel að byggja upp starfsemi okkar í
Asíu. Þá eru tekjur og framlegð í samræmi við okkar væntingar og munum við sjá
hvorutveggja aukast á síðari hluta ársins. Fjármagnsliðir hafa mikil áhrif á
afkomu félagsins á tímabilinu en við stefnum að því að ljúka sölu eigna í
Norður Ameríku á öðrum ársfjórðungi, sem mun lækka vaxtakostnað félagsins
umtalsvert. 
 
Samhliða undirliggjandi vexti samstæðunnar munum við halda áfram að samþætta
starfsemina og ná fram samlegðaráhrifum frá nýlegum fyrirtækjakaupum.“ 

Upplýsingar um uppgjörið veita:
Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Eimskips
Sími: 525 7000 / 825 7221
Póstfang: halldor.kristmannsson@eimskip.is 

Dögg Hjaltalín
Forstöðumaður fjárfestatengsla
Sími: 525 7225 / 825 7225
Póstfang: dogg@eimskip.is

Attachments

arshlutareikningur hf eimskip 31 1 08.pdf 1q frettatilkynning 2008.pdf