Aðalfundur Nýherja hf. verður haldinn föstudaginn 25. janúar 2008 í
ráðstefnusal félagsins, Borgartúni 37, og hefst fundurinn kl. 16:00. 

Á dagskrá fundarins verða:

1. Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt gr. 4.5 í samþykktum félagsins.

2. Tillaga um heimild stjórnar um aukningu hlutafjár sbr. 41. gr.
  hlutafélagalaga. 

Tillaga um breytingu á grein 2.1. í samþykktum um heimild til handa stjórnar
til aukningar hlutafjár í Nýherja hf., lögð fram á aðalfundi félagsins 25.
janúar 2008. 

Aðalfundur Nýherja hf. haldinn 25. janúar 2008 samþykkir eftirfarandi breytingu
á grein 2.1. samþykkta félagsins: 

Stjórn félagsins er heimilt, sbr. 41. gr. Hlutafélagalaga nr. 2/1995, m.s.br.,
að auka hlutafé félagsins um allt að kr. 65 milljónir með útgáfu nýrra hluta og
ráðstafa með eftirfarandi hætti: 

• Allt að kr. 25 milljónir til greiðslu fyrir hlutafé í TM Software ehf. Falla
  núverandi hluthafar frá forkaupsrétti sínum til kaupa á hlutum þessum. 

• Allt að kr. 40 milljónir ætlaðar til sölu til núverandi hluthafa og
  starfsmanna innan Nýherja samstæðunnar. 

Útboðsgengi á þessu hlutafé verði 22, og skal stjórn félagsins ákveða
sölureglur fyrir hlutaféð. Skal áskrift fara fram samkvæmt ákvæðum samþykkta
félagsins og V. kafla Hlutafélagalaga. 

Engar hömlur skulu vera á viðskiptum með hina nýju hluti umfram hömlur á öðrum
hlutum í félaginu. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá
skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar. 

Heimild þessi til stjórnar Nýherja hf. gildir í níu mánuði frá samþykkt hennar.


3. Tillaga um heimild félagsins til kaupa á eigin hlutum, sbr. 55 gr.
  hlutafélagalaga. 

Aðalfundur Nýherja haldinn 25. janúar 2008 samþykkir heimild til handa stjórn
félagsins til að kaupa allt að 10% af nafnverði hlutafjár félagsins, sbr. VIII.
kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Kaupgengi hluta má ekki vera meira en 20%
hærra eða lægra en síðasta skráða gengi á Kauphöll Íslands. Gildistími
heimildarinnar er allt að átján mánuðir. 

4. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 0,60 kr.í arð til hluthafa á
  árinu 2008 vegna rekstrarársins 2007 eða 133.921 mkr. 

5. Önnur mál, löglega upp borin.

Atkvæðaseðlar og fundargögn verða afhent á fundarstað. Hluthafar sem ekki geta
sótt fundinn, en hyggjast gefa umboð, verða að gera það skriflega.
Ársreikningur og tillögur sem lagðar verða fram á fundinum verða settar á vef
félagsins, www.nyherji.is, þann 18. janúar nk.