Kaupþing banki selur starfsemi sína í Færeyjum


Kaupþing banki („Kaupþing”) hefur selt starfsemi sína í Færeyjum til Eik Banki
P/F. Eik Banki tekur yfir starfsemi Kaupþings í Færeyjum þann 31. desember
2007. 

Starfsemi Kaupþings í Færeyjum, sem hófst árið 2000, hefur einkum snúist um
miðlun verðbréfa, eignastýringu, útlán og aðra hefðbundina
fjárfestingabankastarfsemi. Undanfarin ár hefur starfsemin í Færeyjum gengið
vel en þar starfa nú um 30 manns. Eik Banki greiðir fyrir starfsemina með
reiðufé og mun yfirtaka innlán Kaupþings í Færeyjum sem og megnið af þeim lánum
sem bankinn hefur veitt þar. 

Áhrif sölunnar á rekstur og efnahag Kaupþings eru óveruleg. Salan er háð
venjubundnum fyrirvörum af hálfu kaupanda og seljanda. 

Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings
„Starfsemin í Færeyjum hefur gengið vel síðustu ár og ég er þess fullviss að
svo verði áfram hjá nýjum eigendum. Með fjölgun starfsstöðva Kaupþings á
meginlandi Evrópu var sú ákvörðun tekin að selja starfsemina. Ég vil nota
tækifærið og þakka Peter Holm, framkvæmdastjóra, og öðru starfsfólki í Færeyjum
fyrir sérlega ánægjulegt samstarf og afar góðan árangur.“ 

Nánari upplýsingar veitir:
Jónas Sigurgeirsson, Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Kaupþings, í síma 444 6112