Festi hf.: Kaupréttaráætlun fyrir starfsfólk Festi og dótturfélaga – niðurstaða þátttöku og úthlutun kauprétta


Á aðalfundi Festi þann 6. mars 2024 var stjórn veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun byggða á 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og gera kaupréttarsamninga við allt fastráðið starfsfólk samstæðunnar um kaup á hlutum í félaginu. Nú hefur verið gengið frá kaupréttarsamningum við starfsfólk í samræmi við samþykkta kaupréttaáætlun. Kaupréttur samkvæmt áætluninni nær til allra fastráðinna starfsmanna Festi og dótturfélaga og er markmið áætlunarinnar að tengja hagsmuni starfsfólks við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess.

Samkvæmt áætluninni öðlast hver kaupréttarhafi rétt til að kaupa hluti í Festi fyrir að hámarki 500.000 krónur einu sinni á ári í þrjú ár, þ.e. eftir birtingu ársfjórðungsuppgörs vegna 1. ársfjórðungs fyrir árin 2025, 2026 og 2027. Starfsfólki er heimilt að fresta nýtingu sinni á réttinum, í heild eða hluta, á fyrsta og/eða öðru nýtingartímabili til næsta nýtingartímabils eða þess þriðja. Að loknu þriðja nýtingartímabili falla allir ónýttir kaupréttir niður.

Kaupverð hluta er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins síðustu tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 24. apríl 2024, eða kr. 191,50 hver hlutur.

Alls tóku 1.118 starfsmenn samstæðunnar þátt í kerfinu sem nær til allt að 2.917.980 hluta á ári, eða 8.753.940 hluta fyrir öll þrjú árin, miðað við 100% nýtingu kauprétta.

Kaupréttaráætlun þessi var staðfest af ríkisskattstjóra þann 8. apríl 2024 og er í samræmi við 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Kaupréttaráætlunin er meðfylgjandi.

Nánari upplýsingar veita Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi – asta@festi.is eða Magnús Kr. Ingason, fjármálastjóri Festi – mki@festi.is

Viðhengi



Attachments

Kaupréttaráætlun fyrir starfsmenn Festi hf. og dótturfélaga