Kaupþingi veitt málskotsheimild


Dómstóll í Bretlandi (High Court of England) hefur heimilað Kaupþingi
banka hf. að fylgja eftir kröfu sinni um að fram fari lögfræðileg
endurskoðun (e. Judicial Review) á réttmæti ákvörðunar breskra
stjórnvalda um að framselja til þriðja aðila, án bóta, innstæður á
Kaupthing Edge reikningum hjá dótturfélagi bankans í Bretlandi,
Kaupthing Singer & Friedlander, þann 8. október 2008. Ákvörðunin var
undanfari ákvörðunar breskra yfirvalda um að setja Kaupthing Singer &
Friedlander í greiðslustöðvun (e. administration), sem hafði þær
afleiðingar að lánardrottnar Kaupþings banka gjaldfelldu lán á hendur
bankanum og Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn hans.

Að fenginni þessari niðurstöðu og með fyrirvara um að fjárstuðningur
fáist frá íslenska ríkinu til að halda málinu áfram, mun nú fara fram
sönnunarfærsla og efnislegur málflutningur fyrir dómstólnum um þau
sjónarmið sem bjuggu að baki íhlutun breskra stjórnvalda í rekstur
Kaupthing Singer & Friedlander, en Kaupþing banki heldur því fram að
aðgerðir breskra stjórnvalda hafi verið óréttmætar og andstæðar
lögum.

Skilanefnd Kaupþings banka fagnar því að þessum áfanga skuli náð og
vonast til að fjárstuðningur verði tryggður þannig að unnt verði að
halda málaferlunum áfram. Skilanefnd Kaupþings banka áréttar einnig
að afstaða dómstólsins felur ekki í sér vísbendingu um hverjar verði
endanlegar lyktir málsins, að loknum málflutningi um efnisþætti þess.

Nánari upplýsingar veitir Jóhannes Rúnar Jóhannsson,
hæstaréttarlögmaður, í síma 693 6969 eða í gegnum netfangið
johannes.johannsson@kaupthing.com.
Skilanefnd Kaupþings banka hf.